Friday, December 4, 2009

Kyrrlát jól

Skrifað þann 29. desember árið 1914
Hinn 23. desember höfðum við aðsetur hjá þýsku fólki og fór þar einstaklega vel um okkur. Við sátum í hlýrri stofu á aðfangadagskvöld og vorum að tala um, hvernig við ætluðum að halda jólin.
Allt í einu voru dyrnar opnaðar og kallað inn: „Sofort fertig machen und ausrücken!“ (Búa sig strax og af stað!)
Okkur brá heldur en ekki í brún. Við urðum svo að fara sex til sjö kílómetra áleiðis til R. og þar var skyttunum skipað að fara ofan í skotgryfjurnar. Mér var sagt að vera hjá riddarahöfuðsmanninum sem boðberi og var ég því kyrr í bænum, en úti urðum við að vera um nóttina. Í dögunina reyndum við að koma hestunum okkar í hús og gátum það og fórum nú að hugsa til jólakvöldsins fram úr þessu. En þá var mér skipað að fara með boð til bæjarins K. klukkan hálf þrjú. Ég komst þangað, en var að bíða lengi eftir majórnum okkar, svo að nóttin datt á. Beið ég þarna aleinn og reikaði hugurinn þá ósjálfrátt heim á leið til ástvinanna.
Allt í einu hrökk ég upp við óminn af jólasálminum og hljómaði hann frá hersveit nokkurri, sem var þar í vegarskurði hér um bil þrjátíu metrum frá mér. Sungu þeir hvern sálminn af öðrum og allólíkt því, sem hermenn eru vanir að syngja. Ég hefi aldrei heyrt hjartnæmari og hátíðlegri jólasöng en þennan, sem hljómaði til mín þarna í næturkyrrðinni, og var mér þetta eins og stórhátíð, þó ekki væri um neina ytri viðhöfn að ræða. Fór ég að biðjast fyrir í huga mínum. Litlu síðar kom majórinn og fékk ég honum boðin og reið síðan til baka.
Það lá vel á mér, þegar ég náði til bústaðar míns. Félagarnir höfðu útvegað jólatré og varð að hengja það upp undir loftið vegna þrengsla. Ég kom klárnum mínum fyrir og lét hnakkinn vera á honum, því að við urðum alltaf að vera ferðbúnir. Ég gat hvergi lagt mig vegna þrengsla og fleygði mér því hjá hestinum og þar með endaði jólakvöldið fyrir mér

Heimild: Heimsstyrjöldin. Frá [sic] sjónarmiði þeirra, sem við hana vinna. einkabréf frá hermönnum, heim til ættingja og vina, Reykjavík, 1915, bls. 38-39.

Kona rússneska foringjans

Kæru foreldrar!

Í fyrra bréfi mínu minntist ég á veiði þá, sem herdeild okkar hlotnaðist, og hefði það þó getað snúist öðruvísi; okkur vildi til að Rússar höfðu ekkert stórskotalið. Að eins tvær riddarasveitir af tvífylki okkar áttu að eiga hér hlut að máli: önnur og hin fjórða, og komu þær stundvíslega á vettvang; hinir riddararnir komu of seint. Enn fremur áttum við von á veiðiliðshersveit, en hún fór afvega. Voru þá ekki eftir nema þessar tvær riddarasveitir af tvífylki okkar, og hinir veiðiliðsmennirnir, eða hér um bil 200 manns alls og tvær fallbyssur og ein vélbyssa. Rússneska fótgönguliðið var þúsund manns að tölu, og auk þess 100 Kósakkar, en þrátt fyrir það var áhlaupið gert á tilteknum tíma – klukkan sjö um morguninn.

Rússar hörfuðu undan þegar þeir urðu þess varir, að ráðist var á þá, en komu þá í flasið á veiðiliðsmönnunum. Þá snéru þeir við, en mættu riddurunum. Leituðu þeir þá til hægri, en þar urðu veiðiliðsmennirnir fyrir þeim aftur. Þá héldu þeir út á ísbreiðu og hnöppuðust þá saman, en þá lét stórskotaliðið og vélbyssan til sín taka og stráfelldi þá; lágu hinir föllnu í hrönnum á ísnum.

Hin unga fríðleikskona berst djarflega við hlið manns síns, liðsforingjans, og ber enginn kennsl á hana í rússneska einkennisbúningnum. Hirðir hún hvorki um kúlurnar né sár þau, er hún verður fyrir, en sækir hiklaust fram, þangað til að hún hnígur niður meðvitundarlaus, og hefur hún þá fengið þrjú skotsár á vinstra handlegg. Maður hennar heldur áfram að berjast, engu að síður, en verður þá fyrir skoti og fellur niður dauður.

Hinir særðu eru lagðir á vagna, þegar Rússar eru teknir höndum, og þar á meðal liðsforingjakonan. Vaknar hún af öngvitinu, þegar farið er að binda um sár hennar við kirkjuna í þorpinu, og spyr eftir manni sínum, en ekki má hún verða þess vísari að hann sé fallinn, og er henni sagt, að hann sé meðal fanganna. Nokkru síðar eru fangarnir leiddir fram hjá vögnum hinna særðu, og vill hún fá að sjá þá um leið, því að ekki leggur hún fullan trúnað á það, sem henni hefur verið sagt. Herlæknirinn lætur tvo menn styðja hana, og situr hún nú uppi og horfir á fangana, sem fram hjá ganga, allt þangað til hinn seinasti fer um – þá lætur hún augun aftur og tárin streyma niður kinnarnar. Nú veit hún, að maður hennar er ekki lengur á landi lifenda.

Daginn áður hertóku Kósakkar ungherra einn úr tvífylki okkar. Hann var mágur L. foringja, sem einnig heyrir fylkinu til. Daginn eftir fannst lík hans, og höfðu Kósakkar skotið hann, en náð honum þó ósærðum. Hafði hann verið skotinn bæði í höfuðið og hjartað.

Þegar nú hinir herteknu fótgönguliðsmenn voru leiddir fram, þá kom einn þeirra því upp, að hái og granni Kósakkaforinginn hefði skotið ungherrann. Fékk L. liðsforingi undir eins vitneskju um þetta, og Kósakkaforinginn verður auðvitað leiddur fyrir herrétt. Enginn þarf að óttast, þó að hann falli í hendur rússnesku fótgönguliði, en Kósakkarnir eru grimmdarseggir. Nú eru engir Kósakkar hér á slóðum – aðeins rússneskir riddarar.

Við eigum ennþá óvini að verjast undir eins og komið er hingað inn á Rússland – og það er óværan. Rússar eru þessu alvanir, og álíta það sé hraustleikamerki að vera „kvikur“. Ekki sækir hún í höfuðið, ef það er þvegið daglega, og er hægt að verja sig þannig, ogvið höfum frið fyrsta og annan daginn eftir að við höfum haft fataskipti og laugað okkur, en úr því fer að ganga illa að festa svefn á kvöldin.

Í rússnesku þorpunum er sjaldnast hægt að hitta nokkurn mann, sem er læs eða skrifandi, og enginn sækir skólana, því að allt eru tómar vegleysur. Sama er að segja um Þjóðverja þá, sem hér hafast við. Hérna í húsinu eru t.d. tvær konur, önnur tvítug og hin tuttugu og fjögurra ára. Er hin eldri þeirra gift, og á tvö börn, en maður hennar er farinn til Ameríku. Þær kunna ekki að lesa eða skrifa, hvorki þýsku, rússneska né lettnesku, og getur konan því ekki skrifað manni sínum í Ameríku, og hann ekki heldur skrifað henni. Þó hefur hann einhvern veginn getað komið til hennar fargjaldi til Ameríku, en hún getur nú ekki notað sér það fyrst um sinn. Ég skrifaði bréf fyrir hana í gær til mágkonu hennar, sem á heima handan við landamærin. Bróðir hennar er þýskur þegn og líklega kominn í stríðið, en það langaði hana til að fá að vita.

Hér er auma forin! Í hverju húsi eru nægar birgðir af tréskóm, og eru þeir alveg nýir og engin leðurbrydding á þeim, - alveg eins og gömlu tréskórnir heima. Ganga hér nú allir á tréskóm, allt frá riddarahöfuðsmanninum og ofan að yngsta nýliðanum. Menn verða að ganga yst á götunni, því að á henni miðri tekur forarleðjan í hné. Það er ljóti óþverrinn!

Við höfum nú dvalið því nær fimm mánuði í þessu hræðilega landi, og erum fyrir löngu orðnir leiðir á því. Það er sama hvern flokkinn menn fylla, og hvers menn óska í hjarta sínu um úrslitin, því að allir munu verða á einu máli um það, að rússnesk „menning“ megi ekki verða ofan á og ná útbreiðslu. Það kemur heldur aldrei til þess. Það þarf mörgu að bylta og breyta á Rússlandi – eiginlega öllu, og sá sem ekki veit af eigin sjón og reynd, hvað ástandið þar er rammöfugt í alla staði, honum er ómögulegt að gera sér það í hugarlund.

Heimild:
Heimsstyrjöldin. Frá [sic] sjónarmiði þeirra, sem við hana vinna. einkabréf frá hermönnum, heim til ættingja og vina, Reykjavík, 1915, bls. 113-117.